Innlent

Læknar segja félagsmálaráðherra að hvíla sig

Læknar hafa sagt Magnúsi Stefánssyni félagsmálaráðherra að hvílast, eftir að hann fékk aðsvif og þurfti að hætta í miðri ræðu á Alþingi í morgun. Tveir sjúkrabílar voru sendir á Alþingi en ráðherrann fór síðan með ráðherrabíl sínum á sjúkrahús til rannsókna.

Félagsmálaráðherra hafði rétt hafið ræðu um jafnréttisáætlun til næstu fjögurra ára, þegar honum varð erfitt um mál og óskaði eftir því við forseta að fá að gera hlé á ræðu sinni.

Magnús gekk eftir þetta inn í hliðarsal Alþingis þar sem starfsmenn þingsins og þingmenn huguðu að honum. Tveir sjúkrabílar komu fljótlega að Alþingi og sjúkraliðar könnuðu heilusfar ráðherrans. Ásta Möller þingmaður Sjálfstæðismanna og hjúkrunarfræðingur var ein þeirra sem huguðu að ráðherranum, sem fór svo með ráðherrabílstjóra sínum á sjúkrahús til skoðunar. Skömmu fyrir fjögur kom ráðherrann aftur til þings og hugðist klára ræðu sína, en treysti sér ekki til þess þegar á reyndi og hélt heim á leið.

Magnús sagði í viðtali við Stöð 2 að hann hefði fundið til máttleysis og þreytu. Læknar segðu honum að hvílast. En hann hefði ekki hugsað nógu vel um sig að undanförnu og gætt þess að nærast og hvílast vel. En það myndi hann svo sannanlega ætla sér að gera nú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×