Innlent

Ný lyfjastefna

Siv kynnir lyfjastefnuna á fundi sem haldin var  í dag.
Siv kynnir lyfjastefnuna á fundi sem haldin var í dag. MYND/Valli

Siv Friðleifsdóttir heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra kynnti í dag nýja lyfjastefnu til ársins 2012. Í lyfjastefnunni eru dregin fram þau atriði sem betur mega fara í lyfjamálum á Íslandi og sett fram áætlun um úrbætur. Stefnan var samin af 18 manna nefnd sem ráðherra skipaði um málið í september 2004.

Nefndinni var falið að leita leiða sem tryggja örugga og skynsamlega notkun lyfja á sem hagkvæmustu verði fyrir landsmenn og hið opinbera. Þetta er í fyrsta skipti sem slík stefna til lengri tíma er sett fram hér á landi.

Þá hefur ráðherra að fengnum tillögum sérstaks starfshóps fallist á að komið verði á formlegu samstarfi sjúkrastofnana sem reknar eru af ríkinu og af Samtökum fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu um útboð og sameiginleg innkaup á lyfjum.

Einnig kom fram á fundi sem ráðherra hélt í dag að í kjölfar aðgerða sem gripið hefur verið til síðustu misseri er heildsöluverð frumlyfja á Íslandi nú sambærilegt við verð sömu lyfja á Norðurlöndum. Hins vegar er heimiluð álagning apóteka töluvert hærri hér á landi auk þess sem stefna þarf að aukinni notkun ódýrari samheitalyfja og að efla samkeppni á lyfjamarkaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×