Innlent

Sturla lætur rannsaka jarðgangarannsóknir

Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra hefur ákveðið að verða við óskum Eyjamanna um að fá óháða aðila til að fara ofan í þær rannsóknir sem liggja fyrir, leggja mat á þær og kostnað við hugsanleg jarðgöng.

Bæjarstjórn Vestmannaeyja ályktaði nýklega að leggja til til við stjórnvöld að óháðu ráðgjafafyrirtæki á sviði jarðvegsrannsókna og jarðgangagerðar yrði falið að leggja mat á þörf fyrir frekari rannsóknir vegna jarðganga milli lands og Eyja og væntanlegum kostnaði af þeim.

"Ég hef ákveðið að verða við þessum óskum Eyjamanna. Fá óháða aðila til að fara ofan í þær rannsóknir sem liggja fyrir, leggja mat á þær og kostnað við hugsanleg jarðgöng," segir Sturla í viðtali við Fréttir í Vestmannaeyjum.

"Menn geta þá séð svart á hvítu hvert mat utanaðkomandi aðila er. Þannig að rétt eina ferðina verð ég við óskum bæjaryfirvalda og vænti þess að menn meti það og gefi okkur vinnufrið. Þetta hef ég gert í samráði við þingmenn Suðurkjördæmis og að sjálfsögðu vegamálastjóra. Vegamálastjóri og allt hans fólk hefur unnið vel að þessum málum. Á stundum hefur mér fundist að umræður um stofnanir ráðuneytisins séu vægast sagt ómálefnalegar," segir Sturla í viðtalinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×