Innlent

Fimm kynningarfundir vegna stækkunar álvers Alcan

MYND/Anton Brink

Hafnarfjarðarbær stendur á fimmtudaginn fyrir fyrsta kynningarfundinum af fimm í tengslum við atkvæðagreiðslu um stækkun álvers Alcan í Straumsvík.

Fundurinn hefst klukkan 20 og verður í Bæjarbíói en þar verður kynning á því deiliskipulagi sem Hafnfirðingar kjósa um þann 31. mars. Jafnframt verður sutt kynning á fyrirkomulagi atkvæðagreiðslunnar sjálfrar.

Þrír fundir verða svo haldnir dagana 20., 21. og 22. mars þar sem fundarefnin verða umhverfis- og mengunarmál, skipulag og framtíð byggðar og samfélags- og efnahagsmál. Síðasti fundurinn fer svo fram tveimur dögum fyrir atkvæðagreiðsluna, 29. mars, í Hafnarborg en þar munu fulltrúar ólíkra sjónarmiða í atkvæðagreiðslunni koma þeim á framfæri. Sá fundur verður að hluta til í beinni útsendingu á Stöð 2.

Fundirnir eru öllum opnir svo lengi sem húsrúm leyfir og hvetur Hafnarfjarðarbær bæjarbúa til að mæta og kynna sér málin. Fundunum verður jafnframt varpað á Vefveitu Hafnarfjarðar, www.hafnarfjordur.is/x31mars, og er hægt að nálgast upptökur af fundunum á sömu slóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×