Innlent

Fyrsti fundur nýs hlutafélags um Ríkisútvarpið

MYND/GVA
Stofnfundur Ríkisútvarpsins ohf. fór fram í Þjóðmenningarhúsinu í dag en eins og kunnugt er var samþykkt á Alþingi snemma á árinu að breyta stofnuninni í opinbert hlutafélag.

Fram kom á fundinum að hlutafé félagsins verður 840 milljónir króna en það er það eigið fé sem getið er í skýrslu sérfæðinganefndar vegna hlutafélagsins að teknu tilliti til endurmats á eignum félagsins og niðurfellingu skulda við ríkissjóð. Skýrsluna vann nefnd undir forsæti Sigurðar Þórðarsonar ríkisendurskoðanda og skilaði í fyrra.

Þá var jafnframt kosið í stjórn félagins á fundinum. Ómar Benediktsson var kjörinn stjórnarformaður Ríkisútvarpsins en auk hans sitja þau Kristín Edwald, Páll Magnússon, Jón Ásgeir Sigurðsson og Svanhildur Kaaber í stjórn hlutafélagsins. Útvarpsstjóri verður samkvæmt samþykktum framkvæmdastjóri félagsins og hefur með höndum daglegan rekstur þess.

Samkvæmt lögum um Ríkisútvarpið tekur hlutafélagið formlega til starfa um næstu mánaðamót og að sögn Páls Magnússonar útvarpsstjóra ætla 34 starfsmenn að hætta og nýta sér biðlaunaréttindi sem þeim buðust í tengslum við breytingarnar.

 

Samkvæmt samþykktum félagsins verður RÚV ohf. óheimilt að sameinast öðru félagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×