Innlent

Tæplega sjö milljarða króna tap hjá 365 á síðasta ári

MYND/GVA

365 hf, sem áður var Dagsbrún hf. og rekur meðal annars Vísir.is, tapaði sjö milljörðum króna á síðasta ári samkvæmt ársuppgöri sem birt var í dag. Er það mikill viðsnúningur frá árinu 2005 þegar hagnaður Dagsbrúnar var um 700 milljónir króna. Sérstök varúðarfærsla og afkomuhlutdeild í niðurlagðri starfsemi nam nærri sex milljörðum.

Segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands að í þessu samhengi sé rétt að geta að tap af rekstri eininga sem hafa verið aflagðar, s.s. NFS, DV og tímaritaútgáfu, falli undir reglulega starfsemi á árinu 2006.

Tap á fjórða ársfjórðungi síðastar árs nam 2,2 milljörðum króna eftir skatta, en hagnaður að upphæð 255 milljóna varð af áframhaldandi starfsemi.

Enn fremur segir í tilkynningunni að tímabilið október til desember 2006 sé fyrsta tímabilið sem 365 hf. birtir afkomu eftir skiptingu Dagsbrúnar hf. í 365 hf. og Teymi hf. en rekstrarlegur aðskilnaður átti sér stað 1. október 2006.

 

Haft er eftir Ara Edwald, forstjóra 365 hf., að síðasta ár hafi verið tími mikilla umbreytinga hjá félaginu og forvera þess, Dagsbrún. Vinna við þessar breytingar hafi verið tímafrek og kostnaðarsöm auk þess sem 365 hafi þurft að taka á sig miklar afskriftir vegna endurmats á virði þeirra fjárfestinga sem ráðist var í, en eru utan framtíðarreksturs 365 hf. Ljóst sé þó að rekstrarniðurstaða félagsins sé óásættanleg. Menn horfi þó fram á bjartari tíma á árinu 2007, meðal annars vegna þeirra aðgerða sem gripið var til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×