Innlent

Forseta Úganda umhugað um heilsu Valgerðar

Valgerður Sverrisdóttir er nú í vinnuheimsókn í Suður-Afríku.
Valgerður Sverrisdóttir er nú í vinnuheimsókn í Suður-Afríku.

Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra lenti í þrumuveðri á bát á Viktoríuvatni í Úganda þar sem hún var á ferð ásamt íslenskri sendinefnd. Forseti Úganda Yoweri Museveni var umhugað um heilsu hennar og hringdi til að spyrjast fyrir um heilsu Valgerðar eftir ferðina.

Hópurinn var að koma frá Kalangala eyjum. Þar hafa Íslendingar styrkt byggðaþróunarverkefni auk verkefna á sviði útgerðar og fullorðinsfræðslu. Hún segir á heimasíðu sinni að jaðrað hafi við sjóveiki hjá sumum í bátsferðinni og að henni hafi þótt vænt um nærgætni forsetans.

Þess má geta að íslensk stjórnvöld kosta skólamáltíðir 63 þúsund skólabarna í Úganda í samvinnu við Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna. Valgerður hafði forgöngu um verkefnið og var hugmyndin að kosta daglega því sem nemur fjölda íslenskra skólabarna, eða um 46 þúsund. Með því að kaupa innlent hráefni tókst að fjölga máltíðunum um 17 þúsund máltíðir daglega í Úganda.

Í ferðinni heimsótti Valgerður einnig UNICEF búðir þar sem konur hafa fengið athvarf og atvinnu. Þar voru konur að sauma skólabúninga á fótknúnar saumavélar. Valgerður segir að þá hafi rifjast upp fyrir henni að hún hafi sjálf lært á samskonar saumavél hálfri öld áður og hana hafi dauðlangað að sýna leikni sína, en látið kyrrt liggja.

Hópurinn er nú kominn til Pretoríu í Suður-Afríku og mun ferðast til Jóhannesarborgar og Höfðaborgar á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×