Innlent

Eðlilegt að Íslandspóstur hafi keypt Samskipti

MYND/Teitur

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra varði í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag þá ákvörðun Íslandspósts hf. að kaupa fyrirtækið Samskipti ehf. á síðasta ári. Sagði hann það hafa verið eðlilega ákvörðun til að styrkja fyrirtækið í vaxandi samkeppni.

Það var Guðjón Ólafur Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sem spurði ráðherra um málið, hver tilgangur kaupanna hefði verið og hvort frekari áform væru uppi um kaup ríkishlutafélagsins á prentmarkaði.

Ráðherra sagði að samkvæmt samþykktum Íslandspósts væri félaginu heimilt að stofna eða eignast hlut í öðrum félögum. Íslandspóstur væri rekið eins og hvert annað hlutafélag og meirihluta tekna væri aflað á samkeppnismarkaði. Stjórnendur fyrirtækisins hefðu ákveðnar skyldur og með þessu yrði störf starfsmanna Íslandspósts betur tryggð.

Þingmenn Samfylkingarinnar, þau Katrín Júlíusdóttir og Björgvin G. Sigurðsson, gagnrýndu kaupin og sögðu ríkisfyrirtæki ekkert erindi eiga á samkeppnismarkað. Þá benti Jóhann Ársælsson flokksbróðir þeirra á að nýtt hlutfélag, Ríkisútvarpið ohf., gæti einnig staðið í sams konar kaupum.

Fyrirspyrjandinn Guðjón Ólafur sagði svör ráðherra ekki góð og gagnrýndi að kaupin gerðu öðrum aðilum á prentmarkaði erfitt fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×