Innlent

Þarf að ræsa út flugumferðarstjóra fyrir neyðarútköll

Landhelgisgæslan þarf að láta menn í flugstjórnarmiðstöðinni ræsa út flugumferðarstjóra til að manna flugturninn í Reykjavík ef senda þarf þyrlu í neyðarútkall.

Þetta er vegna þess að þyrlurnar fljúga sjónflug en Reykjavíkurflugvöllur er lokaður fyrir allri sjónflugsumferð eins og er vegna deilna flugumferðarstjóra og Flugstoðar. Ekki mun vera ætlast til að gæslan kalli út flugumferðarstjóra vegna æfingaflugs þannig að það liggur niðri við þessar aðstæður.

Ef til útkalls kemur verður flugumferðarstjóri væntanlega sendur úr flugstjórnarmiðstöðinni upp í turn þannig að það á ekki að tefja fyrir viðbragði þrylunnar eftir því sem heimildarmenn fréttastofunnar segja.

Þá liggur allt einkaflug og kennsluflug á Reykjavíkurflugvelli niðri, en Icelandair má áfram skrá Reykjavíkurflugvöll sem varavöll við þessar aðstæður.

Flugfélag Ísalnds hefur getað haldið uppi flugi samkvæmt áætlun í morgun og útlitið er gott í dag ef skýjahæð lækkar ekki yfir Akureyri því hún má ekki fara niður fyrir 1200 fet við núverandi aðstæður, en venjulega er miðað við 800 fet.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×