Innlent

Byrjað verði á 2+1 vegum út frá borginni

MYND/E.Ól

Umferðarráð fagnar fyrirætlunum samgönguyfirvalda um aðskilnað akstursstefna á fjölförnustu þjóðvegum í nágrenni Reykjavíkur og telur heppilegast að byrja á því að breikka vegina til Selfoss og Borgarness með 2+1 lausn en þannig að hægt verði að breikka í 2+2 síðar.

Í ályktun sem samþykkt var á fundi ráðsins á fimmtudag er bent á að þrátt fyrir að breikkun Reykjanesbrautar sé ekki lokið hafi sú framkvæmd þegar fækkað alvarlegum slysum á brautinni og sannað gildi sitt í þágu umferðaröryggis.

Umferðarráð telur að aðskilnaður akstursstefna á Suðurlandsvegi milli Reykjavíkur og Selfoss og á Vesturlandsvegi milli Reykjavíkur og Borgarness séu einhverjar brýnustu aðgerðir í umferðaröryggismálum hérlendis um þessar mundir og hvetur Alþingi til að flýta þeim eins og kostur er.

„Rannsóknir sýna að óverulegur munur sé á umferðaröryggi svonefndra 2+1 og 2+2 lausna en kostnaðarmunur er hins vegar mikill 2+1 lausninni í hag. Það er því skoðun Umferðarráðs að heppilegast sé að hefja sem fyrst framkvæmdir við breikkun umræddra vegarkafla með 2+1 framkvæmd með þeim valkosti að unnt verði síðar að breikka þá enn frekar í 2+2 vegi. Með því móti nýtist fjármagnið best í því skyni að hámarka umferðaröryggi umræddra vegarkafla á sem skemmstum tíma auk þess sem unnt verði að fara í nauðsynlegar umferðaröryggisaðgerðir annars staðar í vegarkerfinu," segir í ályktun Umferðarráðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×