Innlent

Sjúkraflutningamenn vilja ekki Benz

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Slökkvilið hefur notað Econline bíla um árabil.
Slökkvilið hefur notað Econline bíla um árabil.
Sjúkraflutningamenn óttast öryggi sitt og farþega í nýjum sjúkrabílum sem keyptir hafa verið til landsins. Í mörg ár hefur Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins notað bíla af Econline gerð. Nú hafa hins vegar verið keyptir bílar af gerðinni Benz-Sprinter. Vernharð Guðnason, formaður Landssambands Slökkviliðs- og sjúkraflutningsmanna segir að nýju bílarnir þyki ekki eins öruggir og þeir gömlu.

Vernharð segir sjúkraflutningamenn vera hrædda um öryggi sitt og farþega í bílunum. Þeir hafi þá tilfinningu að Sprinter bílarnir séu ekki eins sterkbyggðir og gömlu Econline bílarnir. Sjúkraflutningamenn séu hræddir við að aka þessum bílum í hvassviðri. Þeir séu léttir og geti hreinlega fokið út af veginum og oltið í sterkum vindhviðum. Vernharð segir að sjúkraflutningamenn hafi farið fram á að festingar í sjúkrarými bílsins verði prófaðar eftir viðurkenndum aðferðum.

Vernharð segir að þeir Benzar sem séu í notkun við sjúkraflutninga núna séu svokölluð '96 lína. Hann segir að hún þyki afleit. Vinnuaðstaðan sé slæm. Mikið hljóð berist í sjúkrarými frá götu. Sírenurnar séu inni í bílunum og skapi mikinn hávaða. Allt þetta geri vinnuaðstæður sjúkraflutningsmannanna mjög erfiða. Sjúkraflutningamenn veigri sér því við að nota Sprinter bílana. Margir þeirra kjósi að nota frekar Econline bílana sem séu orðnir of gamlir og úr sér gengnir. Menn vilji samt ekki hætta að nota þá því þeir séu skárri en Sprinterarnir.

Vernharð segir að Landsamband sjúkraflutningamanna hafi verið í viðræðum við Rauða Krossinn að undanförnu, sem leggur Slökkviliðinu til bíla. Vilji sé til úrbóta. Þá sé ný útgáfa af Sprinter bílunum væntanleg og vonast sé til að hún reynist betur en sú gamla.

Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða Krossins segist kannast við óánægju meðal sjúkraflutningamanna. Hann kannist hins vegar ekki við umræðu um að þeir séu óöruggir. Þeir séu vissulega léttari en Econline bílarnir. Þeir hafi verið notaðir úti á landi þar sem vindstrengir séu og það hafi ekki verið til baga.

Kristján segir að Sprinter bílarnir séu mikið notaðir sem sjúkraflutningabifreiðar víða í Evrópu. Þeir séu keyptir samkvæmt útboði þar sem sett séu öll venjuleg skilyrði til evrópskra sjúkraflutningabifreiða. Hann telur að Rauði Krossinn hafi átt mjög gott samstarf við sjúkraflutningamenn um að fara yfir ábendingar sem frá þeim hafi komið. Hann segir að Econline bílarnir hafi ekki staðist umhverfisreglur sem gilda í Evrópu og því hafi þeir ekki verið inni í myndinni. Kristján segist vona að sjúkraflutningamenn verði ánægðir með nýju útgáfuna af Sprinter bílunum sem komi í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×