Innlent

Enn vantar 38 kennara í grunnskóla borgarinnar

Kennara vantar enn þá í 21 grunnskóla af 39 í Reykjavík nú þegar tveir dagar eru þar til kennsla hefst. Eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá menntasviði Reykjavíkurborgar hefur gengið vel að ráða kennara til starfa undanfarna 10 daga og er búið að ráða í rúm 97 prósent stöðugilda kennara í grunnskólunum.

Enginn kennaraskortur er í 18 skólum og átta þeirra eru fullmannaðir hvað allt starfsfólk varðar. 80 starfsmenn vantar alls í rösklega 72 stöðugildi í skólunum, þar af 38 kennara. Búið er að ráða í 93 prósent stöðugilda fyrir annað starfsfólk en mestur skortur er á skólaliðum og er ómannað í rúmlega þrjátíu stöður fyrir þá.

Enn fremur kemur fram í tilkynningu frá menntasviði að farið hafi verið yfir stöðu ráðningarmála í grunnskólunum á fundi menntaráðs Reykjavíkur í dag.

Þar var samþykkt bókun þar sem fram kemur að þensla á vinnumarkaði sé í algleymingi og hafi augu manna meðal annars beinst að ráðningum í grunnskólum vegna óvissu þar um. Það sé því ánægjuefni að útlitið sé bjartara en talið var og ljóst orðið að skólahald muni hefjast með eðlilegum hætti. „Menntaráð þakkar skólastjórnendum og menntasviði fyrir að takast sameiginlega á við að vinna farsællega úr ráðningarmálum kennara og annars starfsfólks skólanna. Þeirri vinnu verður fram haldið og óskar menntaráð eftir að verða upplýst um gang mála," segir að endingu í bókuninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×