Innlent

Sigraðist á bandaríska kerfinu

Aron Pálmi Ágústsson
Aron Pálmi Ágústsson

„Um leið og ég lendi ætla ég að fara að leiði ömmu minnar. Draumur hennar var að fá mig heim til Íslands en hún lést áður en sá draumur varð að veruleika,“ segir Aron Pálmi Ágústsson.

Aron Pálmi kemur heim til Íslands á sunnudaginn. Hann hlaut tíu ára refsidóm þegar hann var þrettán ára gamall fyrir brot sem hann framdi þegar hann var sjálfur ellefu ára gamall. Aron Pálmi dvaldi í sjö ár í Giddings-barnafangelsinu í Texas og hefur verið á reynslulausn með takmarkað ferðafrelsi og gps-staðsetningartæki um ökklann síðan hann losnaði úr fangelsinu. Staðsetningartækið var fjarlægt í fyrradag og hann hefur nú öðlast fullt frelsi á ný. „Ég er mjög spenntur að vera frjáls. Ég sigraðist á kerfi sem hét því að sigrast á mér. Þegar maður er í stofufangelsi er alveg eins og heimurinn stöðvist og þá festist maður í sama farinu. Nú finnst mér allt vera öðruvísi og nýtt,“ segir Aron Pálmi.

Hann segist hafa beðið lengi eftir þessum degi en frelsistilfinningin sé samt allt önnur en hann bjóst við. „Ég er ekki bara glaður heldur líður mér eins og barni. Fólk hlær að mér því ég verð til dæmis mjög spenntur yfir einföldum hlut eins og búðarferð,“ segir Aron Pálmi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×