Innlent

Viðskiptaráðherra vill nýjar rafrænar verðkannanir í verslunum

Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra.
Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra. MYND/VG

Viðskiptaráðherra vill koma á fót rafrænum verðkönnunum til að stuðla að gagnsæi markaðar og virkri samkeppni. Neytendastofu hefur verið falið að vinna að framkvæmdaáætlun og á þeirri vinnu að vera lokið næsta sumar. Könnuninni er ekki ætlað að taka við af verðkönnunum Alþýðusambands Íslands heldur um viðbót að ræða að sögn viðskiptaráðherra.

„Framtíðin í verðkönnunum er rafrænt eftirlit," sagði Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, í samtali við Vísi. „Með þessu er verið að efla verðkannanir hér á landi."

Fram kemur í tilkynningu frá viðskiptaráðuneytinu að Neytendastofa muni setja leiðbeinandi verklagsreglur um rafrænar verðkannanir. Er Neytendastofu einnig gert að hafa víðtækt samráð við alla hagsmunaaðila í tengslum við málið í því skyni að stuðla að sátt um verðkannanir. Vonir standa til þess að þetta muni skila sér í nákvæmari og skjótari úrvinnslu upplýsinga. Vinna við áætlunina á að vera lokið fyrsta júní á næsta ári.

Kaupmenn hafa gagnrýnt verðkannanir Alþýðusambands Íslands harðlega á undanförnum mánuðum og talað um atvinnuróg í því sambandi. Í síðasta mánuði sendu Samtök verslunar- og þjónustu frá sér yfirlýsingu þar sem þess var krafist að Hagstofa Íslands annist verðrannsóknir og að stjórnvöld endurskoði fjárframlög til hagdeildar Alþýðusambandsins vegna verkefna af þessu tagi.

Björgvin G. Sigurðsson segir að ekki standi til að breyta fjárframlögum ríkisins til hagdeildar Alþýðusambandins. Hann ítrekar að ráðuneytið beri fullt traust til sambandsins í þessu efni. „Þetta verður einungis viðbót við þær verðkannanir sem nú þegar eru gerðar hér á landi og gert til að auka aðgengi neytenda að upplýsingum um verðþróun á markaði."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×