Enski boltinn

Krísufundur hjá Sevilla - Ramos sagður vilja burt

NordicPhotos/GettyImages

Krísufundur stendur nú yfir hjá spænska félaginu Sevilla þar sem fregnir herma að þjálfarinn Juande Ramos sé að reyna að fá sig lausan til að taka við enska félaginu Totttenham, sem rak stjóra sinn Martin Jol í gærkvöld.

Forráðamenn spænska félagsins eru sagðir hafa fundað um málið langt fram á nótt og ef marka má frétt Sky nú rétt áðan hefur Sevilla þegar sent fulltrúa sinn til Lundúna til að ræða við forráðamenn Tottenham.

Sagt er að Sevilla sé að hugleiða hvort það eigi að láta Ramos fara - og ef svo yrði - hversu mikla peninga það eigi að heimta í staðinn. Fréttir herma að Tottenham ætli að bjóða Ramos 20 milljónir punda fyrir fjögurra ára samning og að málið muni verða komið á hreint áður en Tottenham og Sevilla spila næst - á sunnudaginn.

Því hefur líka verið haldið fram að Guus Poyet, fyrrum leikmaður Tottenham, verði fenginn til að aðstoða Ramos ef af ráðningunni verður. Hann starfar nú hjá Leeds en þar á bæ segja menn að engar fyrirspurnir hafi borist frá úrvalsdeildarfélaginu í tengslum við Poyet.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×