Enski boltinn

Eigandi Newcastle tapar 10 milljörðum

Fyrirtæki Mike Ashley þjáist eftir klúður enska landsliðsins
Fyrirtæki Mike Ashley þjáist eftir klúður enska landsliðsins NordicPhotos/GettyImages

Hrakfarir enska landsliðsins í undankeppni EM hafa gríðarleg áhrif á efnahaginn í landinu. Einn af þeim sem tapa hvað mestu á því að Englendingar komist ekki á EM er Mike Ashley, eigandi Newcastle.

Ashley er eigandi fyrirtækisins Sport Direct sem selur íþróttavörur og hefur hagnast mest á treyjusölu. Sú staðreynd að Englendingar eru ekki að fara á EM næsta sumar hafa þannig alvarlegar afleiðingar í för með sér, því miklum samdrætti er spáð í treyjusölu á næsta ári.

Hlutabréf í fyrirtæki Ashley hafa hríðfallið í verði eftir ófarir Englendinga og talið er að tap þess nemi allt að 10 milljörðum króna á pappírunum.

Umbro-fyrirtækið sem framleiðir búninga enska landsliðsins mun líka finna rækilega fyrir þessu, ekki síst vegna þess að það er um það bil að setja í sölu nýjan rauðan útibúning enska landsliðsins sem nota átti á EM.

Bréf í Umbro hafa fallið mikið undanfarið og í síðasta mánuði var það gleypt af ameríska íþróttavöruframleiðandanum Nike fyrir litla 37 milljarða króna.

Það voru einna helst breskir veðbankar sem græddu á þjóðarstolti Englendinga í kring um Króatíuleikinn, en þeir verða þó af gríðarlegum summum næsta sumar. Um milljarður punda fór í gegn um bresku veðbankana á HM í fyrra en ekkert slíkt verður uppi á teningnum næsta sumar þar sem Englendingar verða ekki með.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×