Innlent

Tryggja verður stöðu íslenskunnar í stjórnarskrá

200 afmælis Jónasar Hallgrímssonar þjóðskálds verður minnst í næstu viku á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember.
200 afmælis Jónasar Hallgrímssonar þjóðskálds verður minnst í næstu viku á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember.

Íslensk málnefnd telur mjög brýnt að staða íslenskrar tungu verði tryggð í stjórnarskránni og telur mikilvægt að Íslendingar sofni ekki á verðinum gagnvart tungunni. Þetta kemur fram í ályktun nefndarinnar um stöðu tungunnar fyrir árið 2007.

Íslensk málnefnd á samkvæmt lögum að álykta árlega um tunguna. Í ályktun þessa árs er bent á að staða íslenskrar tungu sér sterk í samfélaginu. Um það vitni meðal annars ört vaxandi bókaútgáfa, aukinn dagblaðalestur og gróska í vefskrifum á íslensku. Nefndin segir þó að það veiki óneitanlega stöðu þjóðtungunnar að hvergi sé kveðið á um að íslenska sé mál lýðveldisins. Því þurfi að breyta.

Þá bendir nefndin á að enskan skipi æ stærri sess hjá mörgum íslenskum fyrirtækjum og að þeirri hugmynd hafi verið hreyft að auka notkun ensku í íslenskri stjórnsýslu til hagsbóta fyrir viðskiptalífið. Hvetur nefndin forráðamenn fyrirtækjanna til þess að bjóða erlendum starfsmönnum sínum fremur upp á vandaða íslenskukennslu í vinnutíma. Slíkt ætti að vera sjálfsagður þáttur í þjálfun nýrra starfsmanna.

Nefndin leggur enn fremur áherslu á að mikilvægt sé að meginþorri starfsmanna leikskóla og grunnskóla hafi íslensku að móðurmáli. Tímabilið frá fæðingu fram að kynþroska sé aðalmáltökuskeið barna og góðar málfyrirmyndir á þessu tímabili séu nauðsynleg forsenda þess að þau nái tökum á íslensku. Þá telur nefndin óþarft að taka upp námsbrautir í framhaldsskólum þar sem kennt er á annarri tungu en íslensku. Traust þekking á móðurmálinu sé besti grunnurinn undir frekara málanám og störf á alþjóðlegum vettvangi.

Íslensk málnefnd hvetur enn fremur háskóla til að tryggja stöðu tungunnar í fræðasamfélaginu, meðal annars með því að kenna fyrst og fremst á íslensku. Þá þurfi stjórnvöld að efla íslenskukennslu fyri útlendinga. Jafnframt hvetur nefndin allan almenning til að sýna erlendum starfsmönnum íslenskra fyrirtækja jákvætt viðmót og efla þá í viðleitni sinni til að læra íslensku.

Málefndin telur íslensku hafa alla burði til þess að verða samskiptamálið í fjölmenningarsamfélaginu á Íslandi og að því ættu allir að stefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×