Innlent

Gefur ekki upp orkuverð til Norðuráls vegna Helguvíkurálvers

Hitaveita Suðurnesja gefur ekki upp opinberlega á hvaða verði hún mun selja raforku til Norðuráls vegna hugsanlegs álvers í Helguvík.

Eins og fram kom í fréttum fyrr í vikunni var samið um raforkuverð til álversins og er stefnt að því að hefja framkvæmdir við álverið síðar á árinu. Haft er eftir Árna Sigfússyni, stjórnarformanni Hitaveitunnar og bæjarstjóra í Reykjanesbæ, á vef Víkurfrétta að verðið og samningarnir séu trúnaðarmál samkvæmt kröfu Norðuráls.

Árni segir að reyndar sé það ekki einfalt að gefa slíkt upp því samkvæmt samningum taki verðið nánast daglegum breytingum í samræmi við álverð og gengi bandaríkjadals.

„Við getum þó sagt að verðið sem við fengum 2006 frá Norðuráli fyrir raforku frá Reykjanesvirkjun var að meðaltali rúmlega 31 US mills/kWst og nokkru hærra að meðaltali fyrstu 3 mánuði ársins 2007 (flutningur innifalinn). Verðið til álvers í Helguvík er á bilinu 1,2 - 7,1% hærra eftir markaðsaðstæðum hverju sinni," segir Árni ennfremur í samtali við Víkurfréttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×