Innlent

LÍÚ vill ekki ganga jafnlangt og Hafró í skerðingu þorskkvóta

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Landsamband íslenskra útvegsmanna leggur til að veitt verði um 30 þúsund tonnum meira af þorski en Hafrannsóknarstofnun leggur til, byggðakvóti og línumismunun verði lögð niður ásamt veiðigjaldi og hvalveiðar stórauknar. Búist er við að sjávarútvegsráðherra tilkynni um verulega skerðingu á þorskkvóta á morgun en þingflokkur Sjálfstæðisflokksins fundar nú um málið.

Mánuður er síðan að Hafró kynnti svarta skýrslu sína um ástand þorskstofnsins og ráðgjöf um stórfelldan samdrátt veiða. Í skýrslunni er lagt til að kvótinn verði 130 þúsund tonn næsta fiskveiði árið en um verulega skerðingu er að ræða.

Búist er við því að sjávarútvegsráðherra tilkynni á ríkisstjórnarfundi á morgun um ákvörðun sína og því kemur ekki á óvart að Landssamband íslenskra útvegsmanna hafa sent frá sér tillögur í dag vegna ráðgjafar Hafró.

Sambandið leggur til að veidd verði 155 til 160 þúsund tonn af þroski næstu tvö fiskveiðiárin sem er mun meira en Hafró leggur til. Jafnframt að byggðakvóti og línumismunun verði lögð niður ásamt veiðigjaldi og hvalveiðar stórauknar.

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins situr nú á fundi í Valhöll þar sem farið er yfir stöðuna en sjávarútvegsráðherra sagði fyrir fundinn að hann ætlaði ekki að tilkynna um ákvörðun sína þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×