Innlent

Braut lög um meðhöndlun úrgangs

Karlmaður var í Héraðsdómi Vesturlands í dag fundinn sekur fyrir brot á lögum um náttúruvernd, hollustuhætti, mengunarvarnir og meðhöndlun úrgangs. Maðurinn, sem er starfsmaður fyrirtækis sem sérhæfir sig í holræsahreinsun, var í tvígang staðinn að því að sturta úrgangi úr rotþróm í hraungjótu skammt frá Svalþúfu í Snæfellsbæ.

Maðurinn neitaði ekki sök fyrir dómi. Hann taldi sig hins vegar vera fara að ráðum starfsmanna Snæfellsbæjar þegar hann losaði úrganginn í umrædda hraungjótu. Þessu neituðu fulltrúar bæjarfélagsins og sögðust hafa sagt manninum að losa úrganginn úr rotþrónum í skólpkerfi Ólafsvíkur.

Maðurinn hefur ekki áður komist í kast við lögin og því var refsingu yfir honum frestað af því gefnu að hann haldi almennt skilorð. Honum var hins vegar gert að greiða rúmar 180 þúsund krónur í sakarkostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×