Brasilíumaðurinn Elano hefur slegið í gegn með Manchester City á þessari leiktíð. Hann skoraði magnað mark gegn Newcastle þegar City vann 3-1 sigur á laugardag og sýndi þar að auki mögnuð tilþrif í leiknum.
"Það er ekki hægt að ná betra marki úr aukaspyrnu en þetta," sagði Sven Göran Eriksson, stjóri City, um mark Elano í leiknum um helgina.
"Elano er frábær leikmaður og getur gert nánast allt með knöttinn. Ég hef unnið með toppklassaleikmönnum eins og Roberto Baggio og Roberto Mancini í gegnum tíðina og set Elano í sama flokk og þeir."