Innlent

Létu slökkviliðsstjóra Bolungarvíkur ekki vita af lokunum á símasambandi

Höfnin í Bolungarvík.
Höfnin í Bolungarvík. MYND/365

Síminn lét slökkviliðsyfirvöld í Bolungarvík ekki vita af fyrirhuguðum lokunum á símasambandi í bæjarfélaginu í nótt. Slökkviliðsstjórinn frétti fyrst af málinu í fjölmiðlum síðdegis í dag. Allt símasamband í Bolungarvík verður rofið í tvo klukkutíma í nótt vegna viðhaldsvinnu. Bæjarstjórinn er afar ósáttur við framgöngu Símans í málinu.

„Ég frétti fyrst af þessu þegar ég las tilkynningu frá Símanum á mbl.is um fimmleytið í dag," sagði Ólafur Benediktsson, slökkviliðsstjóri Bolungarvíkur, í samtali við Vísi. „Ég trúði ekki mínum eigin augum og hafði strax samband við Neyðarlínuna til að staðfesta þetta. Sá aðila sem ég talaði við þar var hins vegar ekki búinn að heyra af þessu. Þetta er mjög alvarlegt enda nauðsynlegt að allir viðbragðsaðilar viti af svona lokunum."

Vegna viðhaldsvinnu verður allt símasamband í Bolungarvík rofið milli klukkan tvö til fjögur í nótt. Farsímasamband mun einnig rofna. Bæjarbúar verða því sambandslausir við umheiminn í tvær klukkustundir. Bæjaryfirvöld í Bolungarvík fréttu fyrst af fyrirhuguðum lokunum klukkan tvö í dag.

Grímur Atlason, bæjarstjóri Bolungarvíkur, sendi fyrr í dag frá sér yfirlýsingu þar sem hann gagnrýnir framgöngu Símans og segir ljóst að bæjaryfirvöld hefðu átt að fá tilkynningar um málið miklu fyrr. Segir hann um grafalvarlegt mál að ræða.„Það er ljóst að þessu máli er ekki lokið af hálfu bæjaryfirvalda í Bolungarvík," sagði Grímur í samtali við Vísi. „Síminn þarf að breyta verklagsreglum í svona málum."

 


Tengdar fréttir

Allt símasamband í Bolungarvík rofið - grafalvarlegt mál segir bæjarstjóri

Bæjastjórinn í Bolungarvík gagnrýnir Símann harðlega fyrir að láta bæjaryfirvöld vita of seint af fyrirhuguðum viðgerðum á símstöðinni í Bolungarvík. Allt símasamband í Bolungarvík fellur niður milli klukkan tvö og fjögur í nótt vegna viðgerða þar á meðal samband við Neyðarlínuna. Bæjarstjórinn segir um grafalvarlegt mál að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×