Innlent

Móta aðgerðir til að mæta kvótaskerðingu

MYND/Gunnar

Ríkisstjórnarflokkarnir móta nú aðgerðir til að mæta yfirvofandi kvótaskerðingu næsta fiskveiðiárs. Gripið verður til sértækra aðgerða til að styrkja atvinnulífið á stöðum sem hvað verst verða úti.

Þingflokkur Samfylkingarinnar ætlar að funda um málið í fyrramáli og ræða þar hugsanlegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna skerðingar þorskkvótans.

Búist var við því að sjávarútvegsráðherra myndi tilkynna um kvótaskerðingu í gær. Samkvæmt heimildum fréttastofu var beðið með að tilkynna ákvörðun sjávarútvegsráðherra þar til búið er að móta aðgerðir til að mæta yfirvofandi kvótaskerðingu. Ljóst er að niðurskurðurinn kemur illa við ýmsar byggðir svo sem Vestfirðina, Suðausturland og Norðausturland. Báðir flokkar eru nokkuð sammála um hvaða aðgerðir þurfi að grípa til.

Búist er við að aðgerðirnar muni að mestu snúa að því að styrkja innviði svæðanna til dæmis með úrbótum í samgöngumálum. Auk þess sem gripið verði til sértækra aðgerða til að styrkja atvinnulífið á þeim stöðum sem hvað verst verða úti.

Þingmenn sem fréttastofan ræddi við eru sammála um að grundvallaratriði sé að bæta samgöngumál á svæðunum og fjarskipti. Líklegt er því að í aðgerðunum felist að ýmsum samgönguúrbætum verði flýtt og netsamband bætt. Jafnframt að lögð verði áhersla á ýmsar úrbætur í menntamálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×