Innlent

Benedikt búinn að synda 14 kílómetra

Benedikt Hjartarson, sundkappi.
Benedikt Hjartarson, sundkappi. MYND/Stöð 2

Sundmaðurinn Benedikt Hjartarson var búinn að synda 14 kílómetra yfir Ermasundið um klukkan hálf ellefu í morgun. Benedikt lagði af stað um klukkan hálf sex frá Dover í Englandi en áætlað er að hann komi til Calais í Frakklandi í nótt ef vel gengur.

Fram kemur á vefsíðu Benedikts að meðalhraði hans sé nú um 4 kílómetrar á klukkustund. Matargjafirnar gangi hratt og örugglega en að vindur hafi aukist lítillega. Þá er meiri öldugangur á svæðinu vegna skipaumferðar.

Í gær þurfti Benedikt LaFleur, sundmaður, að hætta við sitt sund eftir að hafa verið í sjónum í rúma 21 klukkustund. Benedikt var þá kominn að strönd Frakklands en þurfti frá að hverfa vegna öldugangs og mikilla strauma.

Nái Benedikt Hjartarson að klára sitt sund verður hann fyrsti Íslendingurinn til að synda yfir Ermasundið.

Vegalengdin milli Dover og Calais er 32 kílómetrar en séu straumar og öldur teknar inn í dæmið er talið að menn þurfi að synda allt að 45 kílómetra til að fara alla leið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×