Innlent

Vilja ræða um hvort stytta eigi leyfistíma nagladekkja

MYND/Stöð 2

Viðræður um styttingu á leyfistíma nagladekkja við Umferðarstofu og athugun á kostum og göllum þess að taka upp einhvers konar takmarkanir eins og gjaldtöku á notkun nagladekkja í samvinnu við ríki og önnur sveitarfélög eru meðal aðgerða sem umhverfisráð borgarinnar samþykkti á fundi sínum í dag. Þetta kemur fram á vef umhverfissviðs.

Tillaga um aðgerðir sem miða að því að draga úr svifryki í höfuðborginni, sem nú þegar hefur farið fimm sinnum yfir heilsuverndarmörk á árinu, var samþykkt einróma í ráðinu en hún gerir einnig ráð fyrir viðræðum við lögreglu um tímabundna lækkun hámarkshraða á stofnbrautum þegar veður og mælingar gefa til kynna að svifryk muni aukast í borginni.

Þá var jafnframt samþykkt að halda áfram að rykbinda umferðaræðar borgarinnar þegar ástæða þykir en það gaf góða raun í síðustu viku þegar kalt og þurrt var í veðri.

Umhverfisráð leggur fleira til, þar á meðal að sett verði skilyrði um lágmörkun rykmyndunnar í starfsleyfi um niðurrif húsa og að kannað verði með Strætó hvort unnt sé að vera með tilboð í strætisvögnum þegar mengunarútlit er slæmt.

Bent er á að Reykjavíkuerborg geti þó ekki ein staðið í þessum aðgerðum heldur verði önnur sveitarfélög og ríki að koma að málinu ásamt íbúum höfuðborgarsvæðisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×