Innlent

Kynþáttahatur sagt vaxandi vandamál

Veggjakrot við heimili erlends verkafólks. Lagt er út af orðum Jóns Magnússonar, sem skipar fyrsta sæti Frjálslynda flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður, í þessu veggjakorti á húsi í Keflavík þar sem Pólverjar viðhafast.
Veggjakrot við heimili erlends verkafólks. Lagt er út af orðum Jóns Magnússonar, sem skipar fyrsta sæti Frjálslynda flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður, í þessu veggjakorti á húsi í Keflavík þar sem Pólverjar viðhafast. MYND/Víkurfréttir

Samtök kvenna af erlendum uppruna íhuga að kæra Viðar Helgi Guðjohnsen, sem skipar fimmta sæti Frjálslynda flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður, vegna ummæla hans í garð útlendinga á Íslandi.

Ummælin sem um ræðir birtir Viðar á heimasíðu sinni undir yfirskriftinni „Ísland fyrir Íslendinga – Um hvað snýst málið. Hvað erum við hjá Frjálslyndum að tala um!“ Á eftir fylgir greinargerð þar sem Viðar rekur hættur og vandamál sem gætu skapast í landinu með fólksflutningum. Meðal þeirra atriða sem eru nefnd í tengslum við útlendinga eru skipulagðar nauðganir, berklasmit, hnignun heilbrigðiskerfis, misskipting í samfélaginu og því haldið fram að fjölmenningarsamfélög hafi aldrei virkað.

„Mér finnst þetta ekki of djúpt í árinni tekið,“ segir Viðar um skrif sín. Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður flokksins, vildi ekki tjá sig um málið, sagði það ekki koma sér við.

 

Einar skúlason

„Þessi maður lýsir vanþekkingu sinni á þessum málum með skrifum sínum. Ég vil ekki gera lítið úr áhyggjum fólks en það þarf að ræða þessi mál af skynsemi. Ekkert af því sem hann segir stenst nánari skoðun og því eru þessi ummæli ef til vill ekki svara verð. Á þessari stundu vil ég fyrst og fremst bjóða honum aðstoð við stafsetningu,“ segir Tatjana Latinovic, formaður Samtaka kvenna af erlendum uppruna. Hún segir málið þó verða tekið til alvarlegrar skoðunar.

 

Tatjana latinovic

Einar Skúlason, framkvæmdastjóri Alþjóðahúss, segist hafa orðið var við vaxandi fordóma í garð útlendinga frá því í nóvember á síðasta ári, eða um svipað leyti og Jón Magnússon, sem skipar efsta sæti lista Frjálslyndra í Reykjavíkur­kjördæmi suður, birti grein sína „Ísland fyrir Íslendinga?“ í Blaðinu. Einar segir að tími sé kominn til að bregðast við þróuninni.

 

Guðjón Arnar Kristjánsson Formaður Fjálslyndaflokksins segir ummæli frambjóðanda flokksins í nafni flokksins ekki koma sér við.

Í blaðinu Víkurfréttum sem gefið er út á Suðurnesjum hefur verið fjallað um kynþáttahatur í bænum. Hús í Keflavík þar sem margir innflytjendur halda til var í vikunni þakið veggjakroti. Auk hakakrossa og setningarinnar „Ísland fyrir Íslendi[n]ga“ var búið að teikna manneskju sem hékk í snöru. Lögreglan á Suðurnesjum segist ekki vita hver standi fyrir krotinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×