Innlent

Belgi keypti sögufrægt hús á Þingeyri á 2,500 krónur

Ungur Belgi vinnur nú að því að gera upp eitt sögufrægasta húsið á Þingeyri í Dýrafirði en hann keypti húsið af Ísafjarðarbæ fyrir tvö þúsund og fimm hundruð krónur.

Tilboð höfðu áður borist í svokallaða Simbahöll en væntanlegir kaupendur hrökklast frá á síðustu stundu, enda var húsið ekki gæfulegt að sjá.

Bæjarráð Ísafjarðar samþykkti að húsið yrði selt Belganum Wouter Van Hoeymissen með það fyrir augum að það yrði gert upp. Halldór Halldórsson bæjarstjóri á Ísafirði segir að það sé skýr stefna á Ísafirði að bjarga gömlum húsum frá niðurrifi, kaupendur eins og Belginn, fái stuðning til að tryggja að húsum sé bjargað.

Mjög hefur færst í vöxt að einstaklingar, m.a. úr Reykjavík og útlendingar komi vestur á firði og kaupi gömul og niðurnídd hús og geri þau upp af smekkvísi, jafnvel í samvinnu við Húsafriðunarnefnd. Van Hoeymissen er í þeim hópi.

Van Hoeymissen var á ferð um Vestfirði þegar hann kom auga á hið sögufræga verslunarhús, og sá möguleika að gera það upp og hefja veitingarekstur í húsinu.

Húsið hefur verið áberandi í bæjarmynd Þingeyrar, það er stórt og glæsilegt, og á sér merka sögu. Innanstokks eru enn þeir munir sem gerðu húsið að einni merkustu verslun á Þingeyri og á Vestfjörðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×