Innlent

Vegi um Öskjuhlíð lokað vegna framkvæmda

Myndin sýnir nýja legu hlíðarfótar og göngustígarins.
Myndin sýnir nýja legu hlíðarfótar og göngustígarins. MYND/Framkvæmdasvið Reykjavíkurborgar
Vegarslóð um Öskjuhlíð frá Hlíðarfæti að Kirkjugörðum Reykjavíkur verður lokað á mánudag vegna framkvæmda við undirbúning lóðar fyrir framtíðarhúsnæði Háskólans í Reykjavík við Nauthólsvík. Gert er ráð fyrir að vegurinn verði lokaður til haustsins 2009 þegar byggingarframkvæmdum líkur. Á meðan er einungis hægt að keyra til Nauthólsvíkur um Flugvallarveg og Hlíðarfót.

Lokunin tengist nýrri legu á göngu- og hjólastíg meðfram Öskjuhlíð, en verið er að færa hann út fyrir byggingasvæði Háskólans í Reykjavík.  Stígurinn verður tekinn í notkun áður en eldri stígur verður aflagður og mun þessi framkvæmd því ekki trufla umferð um stíginn.

Samhliða vinnu við stíginn er hafinn undirbúningur á færslu Hlíðarfótar (sem liggur í framhaldi af Flugvallarvegi) í samræmi við nýtt deiliskipulag. Aðkomu að Nauthólsvík verður opin allan framkvæmdatímann, en vegfarendur eru beðnir um að sýna aðgát og tillitssemi.

Undirbúningur lóðar og vegagerð er samstarfsverkefni Framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar, Orkuveitu Reykjavíkur og Mílu ehf. Verktaki við stíga og vegagerð er ÍAV. Kostnaður við framkvæmdina er um 200 milljónir króna. Verkefnisstjórar Framkvæmdasviðs eru Ársæll Jóhannsson og Höskuldur Tryggvason, tæknifræðingar hjá mannvirkjaskrifstofu Framkvæmdasviðs.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×