Innlent

Fangaverðir segja stjórnvöld halda sér föngnum í störfum sínum

MYND/Stefán

Fangavarðafélag Íslands sakar stjórnvöld um að halda fangavörðum nauðugum í illa launuðu starf með því að nýta sér ákvæði laga og framlengja uppsagnarfrest fagnavarða um þrjá mánuði.

Tugir fangavarða sögðu upp störfum sínum frá og með 31. janúar vegna óánægju með kjör sín en þeir segjast hafa dregist verulega aftur úr viðmiðunarstéttum eins og lögreglumönnum. Þeir hefðu samkvæmt eðlilegum uppsagnarfresi átt að láta af störfum 30. apríl en hins vegar segir í tilkynningu frá félaginu að Fangelsismálastjóri hafi 9. mars síðastliðinn sent fangavörðum bréf þar sem tilkynnt hafi verið að fangelsisyfirvöld hygðust nýta sér ákvæði laga og framlengja uppsagnarfrestinn um þrjá mánuði.

Segir Fangavarðafélagið enn fremur að á þeim rúmu sex vikum sem liðnar séu frá því að fangaverðir sögðu upp hafi þeir aðeins einu sinni verið kallaðir á fund samninganefndar ríkisins. Ljóst sé að Fangelsismálastjóri meti fagmennsku fangavarða í starfi ef marka megi ummæli hans og blaðgreinar að undanförnu en í stað stað þess að leita leiða til úrlausna sé uppsagnafresturinn framlengdur, fangavörðum haldið nauðugum í illa launuðu starfi og gert ómögulegt að hverfa til betur launaðra starfa.

Segir enn fremur í tilkynningu Fangavarðafélagsins að það sé sorglegt til þess að vita ekki sé hægt að sýna fangavörðum sem starfað hafi í fjöldamörg ár meiri virðingu en gert sé með þessari ákvörðun. Fangaverðir og fjölskyldur þeirra, fangar og aðstandendur þeirra og almenningur allur eigi rétt á því að stjórnvöld leiðrétti kjör og vinnumhverfi fangavarða sem fyrst og viðurkenni að fangavarðastarfið sé ekki síður mikilvægt en störf annara löggæslustétta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×