Enski boltinn

Frammistaða Arteta var töfrum líkust

NordicPhotos/GettyImages

David Moyes segir frammistöðu leikmanna sinna í 7-1 sigrinum á Sunderland í dag vera þá bestu síðan hann tók við liði Everton. Hann hrósaði miðjumanninum Mikel Arteta sérstaklega.

"Þetta var líklega besta frammistaða liðsins í minni tíð hérna. Við spiluðum á köflum stórkostlega og spilið og hreyfingin á mannskapnum var til fyrirmyndar. Það er einmitt svona sem ég hef verið að reyna að fá þetta Everton lið til að spila og ég vona að ég sjái meira af þessu í framtíðinni," sagði Moyes.

Hann var afar ánægður með leikstjórnandann sinn Mikel Arteta, sem átti miðjuna í leiknum í dag og var maðurinn á bak við flestar góðar sóknir heimamanna.

"Fyrri hálfleikurinn hjá Arteta var töfrum líkastur. Það sem hann gerði með boltann og tækifærin sem hann skapaði voru með öllu ótrúleg," sagði stjórinn ánægður.

Hinn harðskeytti stjóri mótherjanna í Sunderland var eðlilega ekki jafn kátur. "Maður verður að vera fljótur að læra í úrvalsdeildinni og Everton nýtti sér veikleika okkar til fullnustu að þessu sinni. Þetta er líka lið sem er með þrjá eða fjóra sannkallaða úrvalsleikmenn í sínum röðum, en ég vona samt að strákarnir mínir læri af þessu. Ég verð líka að læra af þessu sjálfur - það var ég sem valdi liðið og ég hef ekkert á móti því að axla ábyrgð á því sem gerðist hér í dag," sagði Keane.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×