Enski boltinn

Venables: Pressan er of mikil fyrir Englending

NordicPhotos/GettyImages

Terry Venables, aðstoðarmaður Steve McClaren hjá enska landsliðnu, skrifar stóran pistil um hvað fór úrskeiðis hjá liðinu í breska blaðinu Sun í dag.

Þar talar hann í stuttu máli um að meiðsli lykilmanna hafi gert enska liðinu erfitt fyrir í síðasta leiknum, en það hafi þó verið úrslitin gegn Makedóníu og Króatíu á útivöllum sem gerðu útslagið í riðlakeppninni. Hann segir það súrt að vegna þessara tveggja leikja muni enginn líklega muna eftir góðu sigrunum sem McClaren vann í tíð sinni með liðið.

Það áhugaverðasta sem Venables talar um í pistli sínum er þó án efa skoðun hans á því hver eigi að taka við enska liðinu. Hann segir líklega best fyrir Englendinga að leita út fyrir landið til að finna þjálfara.

"Ég yrði auðvitað ánægður ef við fengjum enskan þjálfara en ég held bara að pressan sé orðin svo gríðarlega að það sé hreinlega betra að fá útlending í starfið. Þetta er alltaf að verða erfiðara starf og þjálfarinn þarf sífellt að hugsa um öryggi sitt og fjölskyldu sinnar - ekki síst barnanna sinna," sagði Venables.

Hann sagðist líka hneykslaður á því hvernig stuðningsmennirnir væru farnir að snúa baki við liði sínu og baula á það við minnsta mótlæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×