Innlent

20 eða 50 þúsund?

Mikil stemning myndaðist á tónleikunum í gærkvöldi.
Mikil stemning myndaðist á tónleikunum í gærkvöldi. Valli

Mikið fjölmenni var í Laugardalnum í gærkvöldi þegar Kaupþing stóð fyrir stórtónleikum á Laugardalsvelli. Skipuleggjendur segja að tæplega fimmtíu þúsund manns hafi verið á vellinum en lögregla segir þá tölu fullháa, nær lagi sé að tala um að tuttugu þúsund manns hafi mætt á tónleikana. Einar Bárðarson, skipuleggjandi tónleikana, segist aftur á móti vera fullviss um að yfir 40 þúsund manns hafi verið á vellinum. 

Lögreglan þurfti ekki að koma inn á vallarsvæðið þar sem tónleikarnir fóru afar vel fram. "Hegðun vallargesta var til þvílíkar fyrirmyndar að það er ekki skrýtið að lögreglan hafi talið að það væri færra fólk en raunin var. Lögreglan hlýtur að fagna því að hafa átt náðugt kvöld og þar af leiðandi ekki ástæða til annars fyrir skipuleggjendur og lögreglu að fagna góðu kvöldi," segir Einar.

Lögregla segir að vel hafi gengið að stýra ummferðinni af svæðinu eftir að tónleikunum lauk og að allt hafi gengið að óskum. Lögregla segir að nóttin hafi að öðru leyti verið róleg að mestu, ef undan er skilinn eltingarleikur í Breiðholtinu þar sem tvennt var handtekið. Þá var kveikt í ruslagámi á Grandavegi í vesturbænum um klukkan hálfimm í morgun að sögn slökkviliðs. Vel gekk að slökkva eldinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×