Innlent

Stórfellt framboð atvinnuhúsnæðis í vændum

Jón Örn Guðbjartsson skrifar

Tugir þúsunda fermetra atvinnuhúsnæðis koma inná leigumarkaðinn á næstu mánuðum. Byggingaaðilar hafa ekki áhyggjur af verðhruni. Verktakar hafa ekki áhyggjur af verðfalli þrátt fyrir stórfellda aukningu á framboði.

Ekki er að sjá að framkvæmdamenn hafi teljandi áhyggjur af því að allt þetta húsnæði komist í notkun þótt Seðlabaninn bendi á í nýrri þjóðhagsspá að þenslan í hagkerfinu hjaðni nú hratt og við taki slaki í efnahagslífinu.

Leiguverð á atvinnuhúsnæði hefur ekki hækkað til samræmis við hækkanir á íbúðahúsnæði. Að sögn formanns félags fasteignasala hefur atvinnuhúsnæði verið lengur að taka við sér en íbúðahúsnæði.

Iðnaðarmenn fara nú mikinn við að reisa skrifstofuturn við Smáratorg Kópavogi. Turninn verður á endanum 20 hæðir sem samsvarar hartnær 80 metrum. Þetta hús verður um 30.000 fermetrar sem samsvarar að gólffleti á fjórða hundrað meðalíbúðum.

Norðan við Korpúlfsstaði standa yfir talsverðar framkvæmdir við verslunarhúsnæði og miklar skrifstofubyggingar rísa nú við Borgartún, Höfðatún og Nóatún.

Formaður félags fasteignasala segir að það sé markaður fyrir allt þetta húsnæði. Fyrirtæki séu að flytja sig um set í borginni og það sem verði laust, til dæmis í miðborginni, fari hratt aftur í útleigu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×