Innlent

Engin lausn í sjónmáli í deilu flugmanna og Icelandair

Flugmenn ósáttir við að fá ekki störf hjá dótturfélagi Icelandair.
Flugmenn ósáttir við að fá ekki störf hjá dótturfélagi Icelandair. MYND/Brink

Engin sátt liggur fyrir í deilu flugmanna og Icelandair í tengslum við uppsagnir og meint brot á starfsréttindum flugmanna. Forráðamenn fyrirtækisins funduðu með fulltrúum flugmanna í dag en þeim fundi lauk fyrir skemmstu án niðurstöðu. Engir aðrir fundir hafa verið boðaðir en flugmenn hafa boðað til félagsfundar í kvöld.

„Við munum ræða framhaldið á fundinum í kvöld," sagði Jóhannes Bjarni Guðmundsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna, í samtali við Vísi. „Við erum reiðubúnir til að leysa þessa deilu sem fyrst."

Icelandair hefur tilkynnt uppsagnir á nokkrum íslenskum flugmönnum í haust en á sama tíma er félag tengt Icelandair í Lettlandi að ráða til sín erlenda flugmenn. Þetta telja íslenskir atvinnuflugmenn brot á samningi þeirra við fyrirtækið. Samkvæmt honum eiga flugmenn Icelandair forgang á vinnu hjá dótturfyrirtækjum félagsins.

Á þetta sjónarmið hafa forráðamenn Icelandair hins vegar ekki viljað fallast. Í samtali við fréttamann Stöðvar 2 í dag sagði Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair og Icelandair Group, að félagið í Lettlandi væri algerlega óskylt rekstri Icelandair. Því ættu samningar sem Icelandair gerir við sitt starfsfólk ekki að gilda þar.

Fundur Félags íslenskra atvinnuflugmanna verður haldinn á Grand Hótel í Reykjavík og hefst hann klukkan átta í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×