Innlent

Hótaði að smita bílstjóra af lifrarbólgu

Maðurinn sagðist lítið muna eftir atvikunum vegna ástands síns.
Maðurinn sagðist lítið muna eftir atvikunum vegna ástands síns.

Maður sem ákærður er fyrir hótanir, líkamsárásir, þjófnað og eignaspjöll sagðist fyrir dómi nær ekkert muna eftir atvikunum. Aðalmeðferð í máli mannsins, sem er 22 ára, fór fram í á miðvikudag í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Manninum er gefið að sök að hafa, 10. september í fyrra, veist að manni við Hlöllabáta í miðbæ Reykjavíkur og krafið hann um peninga. Þegar sá neitaði hafi maðurinn tekið fram sprautu, dregið blóð úr handlegg sínum og ógnað fórnarlambinu með sprautunni. Síðan slegið manninn með brotinni flösku nokkur högg í höfuðið með þeim afleiðingum að hann hlaut kúlu á hnakkann og þrjá skurði í andlitið, þar af einn stóran.

Þá er honum gefið að sök að hafa síðar sama morgun veist að öðrum manni skammt undan með sömu flösku, krafið hann um peninga, slegið hann í höndina með flöskunni, og sparkað nokkrum sinnum í skrokk hans. Sá hlaut tvo skurði á hendi.

Þá er maðurinn ákærður fyrir að hafa í janúar síðastliðnum ógnað leigubílstjóra með sprautunál og hótað að smita hann af lifrarbólgu C og hótað honum barsmíðum og lífláti. Einnig að hafa í sama skipti kastað grjóthnullungum í framrúðu leigubílsins og brotið hana. Þá er hann ákærður fyrir hnupl.

Maðurinn á einhvern sakaferil að baki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×