Innlent

400 þúsund tonn af útblæstri á ári hverju

Olíuhreinsunarstöð af þeirri stærð sem Íslenskur hátækniiðnaður hyggst reisa á Vestfjörðum myndi blása út 400 þúsund tonnum af koldíoxíði á ári hverju. Gert er ráð fyrir því bæði í stefnumörkun umhverfisráðuneytisins og Kyoto-bókuninni að slíkur útblástur minnki talsvert á næstu árum.

„Miðað við þann tíma sem mun líða frá því að ákvörðun er tekin og þangað til stöðin tæki til starfa, þá reynir ekki á losunarheimildir fyrr en við upphaf nýs Kyoto-tímabils,“ segir Ólafur Egilsson hjá Íslenskum hátækniiðnaði.

Samkvæmt Kyoto-bókuninni skuldbindur Ísland sig til þess að halda útblæstri gróðurhúsalofttegunda innan 3,1 milljóna tonna árlega árin 2008 til 2012. Undanfarin ár hefur útblásturinn alltaf verið yfir þessari tölu.

Viðbótarákvæði í Kyoto-bókuninni, sem á við um Ísland, segir að útstreymi koldíoxíðs frá stóriðju sem tekin hefur verið til starfa eftir árið 1990 megi ekki vera meiri en 1,6 milljón tonn að meðaltali á ári. Efasemdir eru uppi um að olíuhreinsunarstöð rúmist innan þessa ákvæðis, þar sem þær stóriðjuframkvæmdir sem nú þegar hafa verið leyfðar á tímabilinu fylla nánast allan losunarkvótann.

Í febrúar á þessu ári gaf umhverfisráðuneytið út skýrslu um stefnumörkun í umhverfismálum. Þar kemur fram að langtímasýn stjórnvalda sé að „minnka nettólosun gróðurhúsalofttegunda um 50 til 75 prósent fram til 2050, miðað við árið 1990.“

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu. Ekki náðist í Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×