Innlent

Pantaði fjölda flugferða á stolin kortanúmer

Breskur karlmaður, sem fæddur er í Eistlandi, var í gær dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir að stela kortanúmerum og bóka flugferðir á þeim.

Maðurinn, sem er 26 ára gamall, játaði brot sín við yfirheyrslu. Hann stal kortanúmerunum á bar þar sem hann starfaði sem þjónn og nýtti sér þau til þess að kaupa ýmsa þjónustu, þar á meðal flugferðir, einkum frá London til Íslands og þaðan áfram til borga á Norðurlöndum, meðal annars Stokkhólms. Hann bókaði alls níu flug hingað til lands frá því í apríl á þessu ári með því að nota stolin kortanúmer.

Upp komst um manninn þegar fólk, sem hafði greitt með korti á barnum í London, tók eftir því að flugför hefðu verið bókuð með þeirra kortanúmeri sem þau könnuðust ekki við.

Upphæð þeirra brota sem snúa að ólöglegu athæfi mannsins hér á landi nemur um 800 þúsund krónum en heildarumfang brota mannsins er þó nokkuð meira.

Að sögn Eyjólfs Kristjánssonar, hjá lögreglunni á Suðurnesjum, eru brot af þessu tagi litin alvarlegum augum og rannsóknir á þeim oft tímafrekar.

Lögreglan á Suðurnesjum hefur varist frétta af málinu, vegna rannsóknarhagsmuna, frá því maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald fyrir um viku. Ákæra yfir manninum var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í gær og var hann dæmdur strax í kjölfarið, þar sem málið var að fullu upplýst.

Alþjóðadeild ríkislögreglustjóra vann að rannsókn málsins ásamt lögreglunni á Suðurnesjum. Upplýsinga var aflað í samvinnu við lögreglu á Englandi en maðurinn hefur áður komið við sögu lögreglu þar í landi fyrir fjármálamisferli.

Maðurinn var dæmdur til þess að greiða rúmlega 1,3 milljónir króna í skaðabætur og 500 þúsund í kostnað vegna fjársvikanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×