Innlent

Fullorðnir verða börn á Akureyri

Sigurður Sigurjónsson sýnir þeim Sigurjóni Ármanni Björnssyni, Sigurði Má Steinþórssyni og Ágústi Má Steinþórssyni hvernig eigi að bera sig í Dressmann-auglýsingu. Strákarnir eru í hópi þeirra 17 barna sem stíga á svið í uppfærslu Leikfélags Akureyrar á Óvitum.
Sigurður Sigurjónsson sýnir þeim Sigurjóni Ármanni Björnssyni, Sigurði Má Steinþórssyni og Ágústi Má Steinþórssyni hvernig eigi að bera sig í Dressmann-auglýsingu. Strákarnir eru í hópi þeirra 17 barna sem stíga á svið í uppfærslu Leikfélags Akureyrar á Óvitum. Mynd/tot

„Það hefur sjaldan verið jafn mikið fjör í leikhúsinu. Það hreinlega iðar af lífi,“ segir Magnús Geir Þórðarson, leikhússtjóri á Akureyri, en leikfélag Akureyrar æfir nú stíft fyrir fyrstu frumsýningu haustsins. Þar er á ferðinni leikritið Óvitar eftir Guðrúnu Helgadóttur sem skartar 17 stórleikurum á barnsaldri.

Í Óvitunum hefur öllu verið snúið á hvolf. Fullorðnir leika börn og börn leika fullorðna. Tónlistarmaðurinn Jón Ólafsson hefur samið tónlist fyrir verkið en Sigurður Sveinsson leikstýrir.

Í gær stóðu yfir tökur á myndböndum sem notuð verða í sýningunni. Þar leikstýrði Sigurður, átta ára drengjum í Dressman-auglýsingu, níu ára sjónvarpsfréttakonu og 45 ára karlmanni sem auglýsti bleiur.

„Börnin hafa staðið sig ofsalega vel og hér eru upprennandi stórstjörnur á hverju strái,“ segir Sigurður. Hann segir gaman að sjá hve mikill áhugi er á sýningunni en 500 börn komu í prufur í vor og vildu vera með.

Verkið verður frumsýnt 15. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×