Innlent

Reykás ræður ekki við veiðina

„Nei, við ráðum bara ekki við meira eins og er. Það hefur veiðst svo vel, sérstaklega úr Rangánum,“ segir Sigurbjörn Guðmundsson í Fiskiðjunni Reykási, þar sem fiskur er grafinn, reyktur og flakaður.

Sigurbjörn segir veiðina í ár hafa farið seint af stað og „þetta kemur í stærri gusum en venjulega“. Svo rólegt hafi verið fyrri part sumars að hann hafi fengið frí fyrsta sunnudaginn í júlí. „Og það er í fyrsta skipti í níu ár sem ég fæ frí á sunnudegi,“ segir Sigurbjörn, „svo fær maður þetta í bakið núna í staðinn.“

Að auki segir Sigurbjörn torvelt að fá starfsfólk síðsumars þegar námsmenn eru byrjaðir að dusta rykið af bókunum. „Svo gæti aðilum í reykingaþjónustu hafa fækkað líka, svo þetta helst allt í hendur,“ segir hann.

Veiðin er góð þessa dagana og Sigurbirni kemur á óvart hvar veiðist og hvar ekki. „Það er fínt í Brennunni og í Þverá og víðar, en kannski ekki akkúrat á þeim stöðum sem átti að veiðast á.“

Viðskiptavinir Sigurbjarnar gera æ fjölbreytilegri kröfur, segir hann. „Það sem hefur breyst á undanförnum árum er til dæmis að fólk er að koma með fisk sem það ætlar að nota í sushi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×