Innlent

Bók um Jón Ásgeir gefin út í Bretlandi

Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, starfandi stjórnarformanni Baugs, er lýst sem glaumgosa sem sé að kaupa upp Bretland í nýrri bók sem komin er í forsölu. Bókin er gefin út í óþökk Jóns Ásgeirs og ber heitið Sex, Lies and Supermarkets eða kynlíf, lygar og stórmarkaðir.

Bókin hefur enn ekki verið gefin út en hafin er þó forsala á henni á vef Amazon og kostar hún rúmar fjórtán hundruð krónur.

Þeir Jonathan Edwards og Ian Griffiths, höfundar bókarinnar halda því fram að velgengi Baugs á erlendum vettvangi hafi orðið til þess að íslenskum stjórnvöldum fannst þau knúin til að sjá til þess að gefnar yrðu út ákærur á hendur fyrirtækinu. Þetta kemur fram í umsögn sem birt hefur verið um bókina og jafnframt að í bókinni sé sagt frá upphafi Baugsmálsins. Höfundarnir fara yfir málaferlin og segja frá göllum á rannsókn málsins, hvernig Baugi tókst að kljást við þá erfiðleika sem fylgdu dómsmálinu og hvernig Jón Ásgeir fékk að lokum uppreins æru. Miðað við umsögnina virðast höfundar líta svo á sem málinu sé lokið þó enn eigi eftir að taka það fyrir í Hæstarétti.

Í bókinni sem ber heitið Sex, Lies and Supermarkets eða kynlíf, lygar og stórmarkaðir er Jóni Ásgeiri er lýst sem milljónamæringi sem oft hafi verið nefndur í tengslum við svik og leynimakk. Farið er yfir velgengni Baugs og yfirtöku þess á þekktum verslunarkeðjum eins og Oasis, Iceland og Hamleys. Jón Ásgeir sé glaumgosi sem sé að kaupa upp allt Bretland.

Bókin er skrifuð í óþökk Jóns Ásgeirs og vill hvorki hann né talsmaður hans tjá sig um efni bókarinnar. Fréttastofu er ekki kunnugt um að fengist hafi útgefandi fyrir bókina hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×