Innlent

Heimilin skulda 86 milljarða í lánum í erlendri mynt

Heimilin í landinu skulda áttatíu og sex milljarða króna erlendri mynt en þetta er tólf prósent af heildarlánum heimilanna. Lánin geta stórhækkað ef gengi krónunnar fellur og hefur seðlabankastjóri varað við þeim.

Þeim Íslendingum sem taka lán í erlendri mynt fjölgar en í maímánuði voru lán í erlendri mynt tæp tólf prósent af lánum heimilanna. Í ársbyrjun 2004 voru þau aðeins rúm fjögur prósent. Seðlabankastjóri lýsti fyrr í mánuðinum yfir áhyggjum af fjölgun þeirra einstaklinga sem velja að taka lán í erlendir mynt. Hætta væri á að heimilin vanmætu þá áhættu sem felist í lánum í erlendri mynt. Lánin væru álitleg á pappírum en ekki væri allt gull sem glói. Í nýjasta hefti Peningamála sem Seðlabankinn gefur út kemur fram að gjaldmiðlasamsetning hafi breyst síðasta hálfa árið. Um áramótin voru lán til heimila svissneskum frönkum og japönskum jenum tæp 50% gengistryggðra útlána hjá þremur stærstu viðskiptabönkunum en um 85% í maímánuði.

Krónan hefur verið sterk undanfarið. Sveiflur á gengi hennar hafa áhrif á greiðslubyrði lánanna en lán í erlendri mynt eru viðkvæmari fyrir sveiflum en til að mynda verðtryggð íbúðalán sem tekin eru hér á landi. Þeir sérfræðingar á fjármálamarkaðnum sem að fréttatofan ræddi við í dag voru flestir sammála um að lán í erlendri mynt væru hagstæðari en innlend lán til lengri tíma litið. Miklar sveiflur á gengi krónunnar gætu hins vegar reynst heimilunum erfiðar þar sem einstaklingar ólíkt fyrirtækjum hefðu yfirleitt allar sínar tekjur í íslenskum krónum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×