Innlent

Vill tryggja að orkufyrirtæki haldist í almannaeigu

Svandís vill ítarlegri umræðu um stöðu orkufyrirtækja.
Svandís vill ítarlegri umræðu um stöðu orkufyrirtækja. Mynd/ Daníel Rúnarsson

Vinstrihreyfingin - grænt framboðs vill að stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hafi frumkvæði að umræðu á milli ríkis og sveitarfélaga um hvernig megi tryggja að orkufyrirtæki haldist í almannaeigu. Því verði forðað að slík fyrirtæki gangi kaupum og sölum á hlutabréfamarkaði, eins og nú stefnir í varðandi Hitaveitu Suðurnesja.

Í yfirlýsingu frá Svandísi Svavarsdóttur, stjórnarmanni VG í Orkuveitunni, segir hún það vera álit Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs að grunnþjónusta samfélagsins skuli vera á hendi ríkis og sveitarfélaga. Með nýjum samningi um kaup á hlutum í Hitaveitu Suðurnesja sé brotið blað í orkumálum Íslendinga. Þetta krefjist víðtækrar umræðu í þjóðfélaginu og lýðræðislegrar afgreiðslu á Alþingi og hjá sveitarfélögum.

Svandís telur að áform fyrri ríkisstjórnar um að einkavæða 15,2 % i Hitaveitu Suðurnesja hafi engu viðnámi mætt hjá stjórnvöldum. Þrátt fyrir breytta samsetningu ríkisstjórnar. Nú stefni í að gengið verði enn lengra og að 32% veitunnar verði í eigu einkaaðila. Ef fari sem horfi sé lýðræðislegu aðhaldi innan Hitaveitu Suðurnesja stefnt í uppnám. Almannahagsmunir verði fyrir borð bornir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×