Innlent

Sagði lögreglu hafa fagnað eins og á fótboltaleik

MYND/Ingólfur

Helgi Sigurðsson, lögfræðingur hjá Kaupþingi, sagði lögreglu ekki hafa leynt ánægju sinni eftir að hann hefði greint henni frá að ekki hefðu fundist færslur í bókhaldi Kaupþings sem pössuðu við þrettán milljóna króna færslu í bókhaldi Baugs sem skráð var þar sem þóknun vegna hlutabréfakaupa.

Ákært er fyrir þessa færslu í 12. ákærulið endurákærunnar í Baugsmálinu og hún sögð þar tilhæfulaus og Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, forstjóra Baugs, og Tryggva Jónssyni, gefið að sök að hafa látið rangfæra bókhald Baugs á þennan hátt. Jón Ásgeir hefur hins vegar borið því við að færslan hafi verið vegna söluþóknunar frá Kaupþingi fyrir milligöngu um sölu á hlutabréfum í Baugi frá Kaupþingi til norska félagsins Reitangruppen.

Helgi sagði fyrir dómi í dag að honum hefði verið falið samkvæmt bréfi frá yfirmanni efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra að kanna hvort þessi færsla vegna þóknunar Baugs ætti sér samsvörun í bókhaldi Baugs. Rannsókn hefði leitt í ljós að svo væri ekki en Helgi sagðist ekki útiloka að upphæðin hefði verið færð sem hluti af öðrum viðskiptum Baugs og Kaupþings.

Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, spurði Helga út í samskipti hans við lögregluna vegna þessa. Sagðist Helgi hafa tilkynnt Jóni H. B. Snorrasyni, yfirmanni efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra, um að engin færsla vegna málsins hefði fundist í bókhaldi Kaupþings. Spurði Gestur hvernig Jón hefði brugðist við og þá sagðist Helgi að hann hefði ekki leynt ánægju sinni. Hann hefði heyrt það í gengum símann. Gestur spurði hann þá hvernig fögnuðurinn hefði verið og svaraði Helgi því til að það hefði verið gríðarlegur fögnuður - líkt og á fótboltaleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×