Innlent

Félagsmálaráðherra frestaði framsöguræðu og fór heim

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra, sem fékk aðsvif í miðri ræðu á Alþingi í morgun, hætti við að halda ræðunni áfram á Alþingi síðdegis og fór heim. Læknar hafa sagt honum að hvíla sig. Hann hafði ætlað að mæla fyrir jafnréttisáætlun til næstu fjögurra ára, og halda ræðuna sem hann þurfti að gera hlé á í morgun.

Kallað hafði verið á sjúkrabíl og komu tveir bílar að Alþingishúsinu og voru til taks á meðan læknir hlúði að Magnúsi.

Magnús fór í morgun með ráðherrabílnum á sjúkrahús til skoðunar.  Þar kom ekkert sérstakt í ljós, sem læknar töldu ástæðu  að hafa áhyggjur af, en þeir sögðu Magnúsi að fara heim, taka það rólega og hvíla sig.

Að sögn Hjálmars Árnasonar, þingflokksformanns Framsóknarflokksins, er líklegast að það hafi farist fyrir hjá Magnúsi að borða morgunmat og að hann hafi fengið sylkurfall.

Magnús var að mæla fyrir þingsályktunartillögu um jafnréttisáætlun á alþjóðabaráttudegi kvenna, þegar hann bað um að fá að gera hlé á ræðunni og sté síðan úr ræðustól. Ræðan var aftur sett á dagskrá á ný klukkan 16 síðdegis en þegar til kom treysti Magnús sér ekki til að mæla fyrir þingsályktunartillögunni og hélt heim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×