Lífið

Leðrið sérhannað og saumað á Eika

Eiríkur verður í sérsaumuðum buxum og jakka á sviðinu í Helsinki.
Eiríkur verður í sérsaumuðum buxum og jakka á sviðinu í Helsinki.

„Hann verður í nýju sniði og sérsaumuðum buxum," segir Grétar Baldursson, hinn landskunni leðurhönnuður í Kós-leðurvörum, en hann hefur skilað af sér leðurfatnaðinum sem Eiríkur Hauksson á að klæðast á sviðinu í Helsinki. Væntanlega hefur Grétar gert ráð fyrir tveimur af hvorri sort enda ólíklegt að Eiríkur klæðist sama fatnaði bæði kvöldin.

Eins og komið hefur fram í Fréttablaðinu ríkir mikil spenna um það í hvaða fatnaði Eiríkur verður enda skiptir klæðaburður ekki síður miklu máli í keppni á borð við Eurovision þegar gengið er til atkvæða. Greinilegt er að taugarnar eru þandar til hins ýtrasta því Fréttablaðið hafði samband við Sigurð Frey Björnsson hjá BaseCamp, sem sagði að leðrið yrði saumað í London en hannað hjá Grétari. Leðurkóngurinn Grétar vísar þessu alfarið á bug.

 

Grétar segir af og frá að leðrið sé saumað í London, hann sjái um það sjálfur.

„Þetta verður enginn pabbajakki og ég sauma þetta sjálfur," segir Grétar og bætir því við að þegar hafi tíu einstaklingar óskað eftir því að fá svona jakka fyrir Eurovision-kvöldið mikla. „Það kemur ekki til greina, þessi jakki er bara fyrir Eirík," lýsir Grétar yfir.

Stífar æfingar voru í allan gærdag í Loftkastalanum hjá hópnum þótt Eiríkur sjálfur væri víðsfjarri. Verið var að æfa sviðsetningu gítarstrákanna og þótti hún heppnast vel. Í dag verður síðan síðasta rennsli áður en hópurinn heldur út snemma á föstudagsmorgni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.