Innlent

Vilja meiri umræðu um menntamál

Stúdentar hafna skólagjöldum.
Stúdentar hafna skólagjöldum. MYND/Gunnar V.A.

Of lítið hefur borið á umræðu um menntamál í aðdraganda kosninga að mati Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Þetta kemur fram í stefnuskrá sem ráðið sendi frá sér í dag. Að mati ráðsins hafa menntamál fallið of mikið í skuggann af umræðunni um umhverfis- og efnhagsmál.

Í stefnuskránni hafnar ráðið skólagjöldum í opinberum háskólum og telur að slík gjöld myndu skerða jafnrétti til náms. Þá telur ráðið það ólíðandi að einkareknir háskólar, sem inniheimti skólagjöld, fái sama framlag frá ríkinu og opinberu háskólarnir. Vill ráðið að ríkið hækki framlag til opinberu háskólanna um það sem nemur skólagjöld hjá einkareknu skólunum. Aðeins þannig sé hægt að leiðrétta samkeppnisstöðu skólanna.

Þá fer ráðið fram á að námslán verði hækkuð og krafan um 75 prósent námsárangur verði afnumin. Ennfremur að ábyrgðarmannakerfi námslána verði afnumið og mánaðarlegar greiðslur verði teknar upp í stað þess kerfis að greiða lánin tvisvar út á ári eins núna er gert. Þannig verði komið í veg fyrir að námsmenn þurfi að semja um yfirdráttarlán við banka á himinháum vöxtum.

Skorar Stúdentaráð á stjórnmálaflokkana sem bjóða fram til Alþingis að gera stefnumál ráðsins að sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×