Lífið

Eva Ásrún syngur bakrödd í Framsókn

Hefur hingað til farið leynt með sterkar pólitískar skoðanir en nú á að reisa Framsókn úr öskustónni.
Hefur hingað til farið leynt með sterkar pólitískar skoðanir en nú á að reisa Framsókn úr öskustónni. MYND/Vilhelm

„Það var bara leitað til mín. Og ég á lausu. Mjög spennandi verkefni,” segir Eva Ásrún Albertsdóttir, sem hefur verið ráðin kosningastjóri Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi.

Framsóknarflokkurinn er þekktur fyrir það að rísa úr öskustónni þegar líður að kosningum. Og víst er að klókt má teljast hjá forráðamönnum flokksins að hafa dregið Evu Ásrúnu á flot en hún hefur hingað til ekki verið þekkt af pólitískum afskiptum heldur landskunn fyrir að hafa starfað í útvarpi hjá RÚV og ekki síður sem söngkona. Hún hefur margoft lagt keppendum í Eurovision lið með frábærum bakröddum.

Aðspurð hvort hún sé framsóknarmaður segir hún svo vera. Að sjálfsögðu. Hún hefði ekki tekið þetta að sér ef svo væri ekki.

„Enda af mjög öflugum framsóknarættum. Við Guðmundur Bjarnason fyrrverandi ráðherra erum náskyld og Dagný Jóns er frænka mín líka.”

Eva Ásrún á ættir að rekja um Norðausturkjördæmi þvert og endilangt, móðir hennar er úr Þingeyjarsýslu og faðir frá Eskifirði. Þessi sambönd hyggst Eva Ásrún nýta í komandi baráttu.

„Ég hef ekki staðsett mig í pólitík hingað til. Hef ekki verið í aðstöðu til þess meðal annars vegna starfa í fjölmiðlum. Og þetta hefur ekki verið vettvangur sem ég hef sóst eftir að fara inná,” segir Eva Ásrún. En nú er rétti tíminn. Hún segist alltaf hafa haft sterkar pólitískar skoðanir og þarna hefur hjartað slegið.

Eva Ásrún segir Framsóknarflokkinn án efa þann söngglaðasta og skemmtilegasta og á fundum verður bryddað upp á ýmsum nýjungum. Eva Ásrún hvetur menn til að mæta. Og hún hefur enga trú á að kostningar fari eins og skoðanakannanir gefa til kynna. „Ég mun sanna það í Norðausturkjördæmi. Og hana nú!”






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.