Innlent

Stimpilgjöld óverjanleg skattlagning

Jóhanna segir ástæðu þess að stimpilgjaldið sé ekki afnumið vera þá að þau séu orðin mikilvæg tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Tekjur hans vegna gjaldsins eru áætlaðar 6,2 milljarðar á þessu ári.
Jóhanna segir ástæðu þess að stimpilgjaldið sé ekki afnumið vera þá að þau séu orðin mikilvæg tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Tekjur hans vegna gjaldsins eru áætlaðar 6,2 milljarðar á þessu ári.

„Þetta er mjög ósanngjarn skattur, bæði gagnvart fyrirtækjum og einstaklingum,“ segir Jóhanna Sigurðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, um 1,5 prósenta stimpilgjald sem samkvæmt lögum er skylt að greiða til ríkissjóðs af höfuðstóli allra lána.

Samkvæmt ríkisreikningi námu tekjur ríkissjóðs árið 2005 af gjaldinu rúmum níu milljörðum króna. Þær eru áætlaðar 6,2 milljarðar á þessu ári samkvæmt fjárlögum.

Jóhanna segir gjaldið sérstaklega ósanngjarnt gagnvart íbúðareigendum. „Unga fólkið er að spenna bogann alveg á fullu þegar það er að kaupa sér íbúð. Þá kemur ríkisvaldið með krumluna og hirðir hundruð þúsunda í stimpilgjöld. Hámarkslán Íbúðalánasjóðs eru 18 milljónir þannig að stimpilgjöld af þannig láni er um 270 þúsund krónur.“

Ríkið ber ekki neinn kostnað vegna gjaldsins og því segir Jóhanna það ekki vera neitt annað en viðbótarskattheimtu. Auk þess lána bankarnir fólki fyrir gjaldinu og af því lánsfé þarf að greiða vexti og verðbætur út lánstímann. Þeir græða því líka á þessu fyrirkomulagi. „Það er mikill meirihluti fyrir því á Alþingi að afnema þessi gjöld. En þetta er orðin svo mikil tekjuöflun fyrir ríkissjóð að það er ekkert gert. Það getur hins vegar enginn varið þennan skatt. Hann er það óréttlátur.“

Sigurjón Þórðarson, þingmaður Frjálslynda flokksins, tekur í sama streng og segir stimpilgjaldið hindra hreyfanleika neytenda á lánamarkaði. „Þetta gjald kemur í veg fyrir að þú farir með lánin þín á milli banka því ef það er gert þá leggst stimpilgjaldið aftur ofan á lánið. Við lögðum fram þingsályktunartillögu í haust um að þetta yrði aflagt í áföngum til að sýna ábyrgð. En í sjálfu sér gæti ég alveg fallist á að þetta yrði strax tekið af að fullu.“

Báðir stjórnarflokkarnir hafa ályktað um það á landsfundum sínum að stimpilgjaldið skyldi afnumið. Samt hefur slíkt ekki verið gert. Árni Mathiesen fjármálaráðherra segist þó gjarnan vilja losna við stimpilgjaldið. „það er einfaldlega ekki skynsamlegt að gera það nú vegna þess að það er svo mikil þensla á fasteignamarkaðinum. Afnám stimpilgjaldsins myndi leiða til enn meiri þenslu. En undir réttum kringumstæðum gæti þetta orðið beinlínis jákvæð efnahagsleg aðgerð.“ Ekki náðist í Jón Sigurðsson, formann Framsóknarflokksins, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.