Innlent

Stjórnarslit ef ekki næst sátt um auðlindaákvæði

„Við verðum að ná samkomulagi um þetta í ríkisstjórninni á næstunni og ef það tekst ekki er augljóslega komin gjá á milli flokkanna því við erum ákveðin í að láta reyna á þetta mál,“ segir Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins.

Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra sagði á flokksþingi framsóknarmanna í gær að ríkisstjórnin geti átt erfitt með að lifa af ef ekki næst samkomulag um að binda auðlindaákvæði í stjórnarskrá.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að binda beri í stjórnarskrá sameign þjóðarinnar á auðlindum sjávar. Framsóknarmenn leggja þunga áherslu á að við það verði staðið og það undirstrikaði Jón í yfirlitsræðu sinni á flokksþinginu í gær.

Jón samsinnir Siv um að bregðist það verði stjórnarslit. Minnihlutastjórn verði þá að brúa bilið fram til alþingiskosninganna í maí eða að mynduð verði starfsstjórn.

„Við höfum verið í umræðum um þetta innan ríkisstjórnarinnar, og einnig ég og forsætisráðherra, og honum er vel kunnugt um okkar afstöðu.“ segir Jón. „Tíminn er naumur og við þurfum að hafa hraðar hendur í þessu máli. En eins og menn heyra þá er hugur okkar mjög einarður í þessu máli.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins segir óviðeigandi að ráðherrar setji fram málefni í hótunarstíl. „Sérstaklega finnst mér óviðeigandi að nota stjórnarskrána til að hífa sig upp um eitt, tvö eða þrjú prósentustig í skoðanakönnunum eða kosningum. Stjórnarskráin er mikilvægara plagg en það.“

Þorgerður segir að í stjórnarsáttmálanum sé ekki klárt orðalag varðandi auðlindirnar. „Stjórnarskrárnefnd, sem hefur lengi verið starfandi undir forystu framsóknarmanns, hefur örugglega gert ágæta hluti. En hún hefur ekki náð endanlegri niðurstöðu um þetta ákvæði. Við höfum gert það sem við höfum viljað og getað gert, einmitt með það í huga að uppfylla skilyrði stjórnarsáttmálans. Stjórnarsamstarfið fram til þessa hefur verið farsælt og gott. Ég hef enga trú á öðru en að formenn flokkanna muni leysa þetta mál. Stjórnarsáttmálinn stendur og svo einfalt er það.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×