Innlent

Kínverskur verktaki býður í Héðinsfjarðargöng

Kínverskur járnbrautaverktaki, sem hlotið hefur viðurkenningu kínverskra stjórnvalda fyrir pólitíska uppfræðslu starfsmanna, er meðal þeirra sem fá að bjóða í Héðinsfjarðargöng. Vegagerðin hafnaði sama verktaka fyrir tveimur árum.

Héðinsfjarðargöngin verða tvenn, 6,9 kílómetra löng milli Ólafsfjarðar og Héðinsfjarðar og 3,7 kílómetra löng milli Héðinsfjarðar og Siglufjarðar. Vegagerðin hefur nú að undangengnu forvali samþykkt að sex verktakasamstæður fái að bjóða í verkið en þær eru Íslenskir aðalverktakar í samstarfi við svissneskan verktaka, Marti, Metrostav í Tékklandi í samstarfi við Háfell, Ístak og Phil & Sön í Danmörku, Arnarfell, Leonard Nilsen og Héraðsverk og loks kínverski verktakinn China Railways Shisiju Group.

Tilboð verða opnuð um miðjan marsmánuð. Sérstaka athygli vekur að kínverska járnbrautafélagið skuli vera í hópi bjóðenda, en það hefur grafið 68 jarðgöng, bæði fyrir bíla og járnbrautir.

Á heimasíðu Kínverska verktakans kemur fram að hann hefur hlotið fjölda viðurkenninga frá kínverskum stjórnvöldum, meðal annars fyrir framúrskarandi pólitíska uppfræðslu starfsmanna. Kínverska fyrirtækið sóttist eftir að fá að bjóða í Fáskrúðsfjarðargöng og Héðinsfjarðargöng í forvali fyrir tveimur árum en var þá hafnað vegna þess að innlendir aðilar, sem voru í samstarfi við þann kínverska, og skráðir voru sem forsvarsmenn verksins, stóðust ekki kröfur forvalsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×